Bjarni Þór Þórólfsson
Árið 2023 var með sanni viðburðaríkt hjá Búseta. Á árinu fagnaði félagið 40 ára afmæli með glæsilegu afmælishófi á Grand Hótel og með útgáfu innihaldsríkrar bókar um sögu Búseta. Þá sinnti félagið einnig vel grunnmarkmiði sínu, félagsmönnum til heilla, með því að bæta við í fasteignasafnið yfir 150 íbúðum. Vel hefur tekist hjá félaginu að mæta síaukinni eftirspurn eftir íbúðum meðal félagsmanna, en félagið leggur sig fram um að bjóða félagsmönnum upp á vandaðar íbúðir sem mæta ólíkum þörfum fólks, efnum og aðstæðum. Eftir 40 ára starfsemi er óhætt að segja að félagsmenn Búseta njóti fjölbreyttra kosta í þeirri flóru fasteigna sem er að finna hjá félaginu í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
Hjá Búseta er lögð rík áhersla á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma og vekja nýbyggingar Búseta gjarnan athygli fyrir hönnun og vandað efnisval. Félagið hefur á undanförnum árum staðið fyrir talsverðri fjölgun fasteigna í safni sínu. Á síðasta ársfjórðungi ársins 2024 mun félagið afhenda 42 nýjar íbúðir við Hallgerðargötu 24 og 26 við Kirkjusand í Reykjavík. Auk þess standa nú yfir framkvæmdir við Eirhöfða í Reykjavík þar sem félagið byggir 46 íbúðir á spennandi stað um leið og félagið er þátttakandi í umbreytingu Ártúnshöfðans og Elliðaárvogs. Þessi hverfi mynda stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Á þessu svæði, eins og víðar, hefur iðnaður verið að víkja fyrir íbúðabyggð. Bryggjuhverfi Reykjavíkur er glæsilegt íbúðahverfi sem nú teygir sig með aukinni byggð í vestur í áttina að Vogahverfinu. Á árinu 2023 gekk Búseti frá kaupum á 133 nýlegum íbúðum í hverfinu af leigufélaginu Heimstaden en átti þar fyrir 54 íbúðir.
Á síðasta ársfjórðungi ársins 2024 mun félagið afhenda 42 nýjar íbúðir við Hallgerðargötu 24 og 26 við Kirkjusand í Reykjavík.
Sveiflur hafa gjarnan einkennt fasteignamarkaðinn á Íslandi og má segja að það hafi verið svo síðustu misserin. Náttúruöflin hafa sett sitt mark á þróunina, endurtekin eldgos í nálægð við Grindavík hafa kippt fótunum undan þúsundum Grindvíkinga sem hafa þurft að finna sér heimili annars staðar. Eftirspurn eftir húsnæði á suðvesturhorninu hefur því aukist án þess að framboð hafi verið til samræmis. Þegar eftirspurnin er jafn mikil og raun ber vitni duga aðgerðir Seðlabankans aðeins að vissu marki. Þrátt fyrir að flestum sé ljóst að aukið framboð á lóðum sé afar mikilvægur þáttur í lausn vandans virðist opinberum aðilum reynast snúið að auka lóðaframboðið. Ekki er nægilega mikið byggt til að svara síaukinni eftirspurn og því mikil hætta á áframhaldandi ójafnvægi um leið og verðið heldur áfram að þrýstast upp. Þegar þessi staða er uppi, er eins og við má búast, mikil eftirspurn eftir íbúðum Búseta. Það er raunar svo að félagið hefur vart undan að fjölga íbúðum í eignasafni sínu til að svara eftirspurninni og sækja gjarnan tugir félagsmanna um hverja íbúð sem losnar. Líkt og árin á undan hækkaði fasteignaverð á árinu 2023. Bókfært virði eignasafnsins eykst því með hækkandi fasteignamati, sem leiðir til þess að aukinn hagnaður birtist í bókum félagsins eins og árin á undan. Sem fyrr er rétt að minna á að þessi bókfærði hagnaður er fyrst og fremst tölur á blaði.
Á síðasta ári voru í heild seldir hjá félaginu 111 búseturéttir, af þeim 30 í nýjum íbúðum og 81 í eldri íbúðum. Búseti leikur fjölþætt hlutverk á fasteignamarkaðinum og hefur tekist vel að mæta ólíkum þörfum einstaklinga og fjölskyldna með mjög fjölbreyttu framboði fasteigna. Félagið býður upp á litlar, vandaðar og vel staðsettar íbúðir sem hafa heillað fyrstu kaupendur. Þá er félagið með stærri sérbýli sem taka vel utan um stórar fjölskyldur og allt þar á milli. Einnig hefur færst í aukana að þeir sem hafa hug á að flytja í minni fasteign leiti til Búseta. Til dæmis fólk sem hefur dregið úr þátttöku á atvinnumarkaði og horfir til minnkandi fjárbindingar.
Eins og fyrri ár hlutu Búseti og Leigufélag Búseta viðurkenningar Creditinfo og Viðskiptablaðsins á árinu 2023 og eru félögin skilgreind, af þessum aðilum, sem framúrskarandi og til fyrirmyndar. Sjálfbærni og umhverfisvitund ásamt góðum stjórnarháttum eru mikilvægir þættir í starfsemi Búseta. Fyrirtækið Reitun metur sjálfbærnistöðu félaga út frá áhættu, stjórnun og árangri hvað varðar umhverfis- félags- og stjórnarhætti (UFS). Reitun hefur framkvæmt úttektir af þessu tagi á öllum skráðum útgefendum skuldabréfa í íslenskri Kauphöll síðan árið 2020. Horft er til niðurstöðu þessara úttekta við skuldabréfaútboð meðal lífeyrissjóða sem vilja eiga samstarf við félög sem stíga fram með samfélagslega ábyrgum hætti. Búseti hefur viðhaldið góðri einkunn í niðurstöðum Reitunar og verið fyrir ofan meðaltal þegar niðurstaðan er borin saman við aðra útgefendur skuldabréfa. Í samræmi við lög um húsnæðissamvinnufélög lét Búseti vinna ítarlega úttekt um fjárhag og starfsemi félagsins í samstarfi við endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ernst og Young (nú Deloitte). Niðurstaðan varpaði ljósi á mikinn styrk félagsins og góða stjórnarhætti.
Eins og fyrri ár hlutu Búseti og Leigufélag Búseta viðurkenningar Creditinfo og Viðskiptablaðsins á árinu 2023 og eru félögin skilgreind, af þessum aðilum, sem framúrskarandi og til fyrirmyndar.
Hjá Búseta er lögð rík áhersla á að viðhalda fasteignasafninu vel og á árinu 2023 stóð Búseti fyrir umtalsverðum endurbótum og viðhaldi á eignasafni samstæðunnar. Þessi verkefni voru í höndum teymis eignaumsjónar félagsins sem á gott samstarf við fjölbreyttan hóp verktaka. Samlegðaráhrif er lykilhugtak í öllum rekstri Búseta og er auðlindum ráðstafað af skynsemi með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Hjá félaginu er lagt upp úr varfærni og nákvæmri áætlanagerð um leið og unnið er að fjölgun vandaðra íbúða í anda stefnu og markmiða félagsins. Félagið stendur vel og hefur á undanförnum árum vaxið um leið og stoðir hafa styrkst. Þetta byggir ekki síst á öflugri liðsheild og kjarnahæfni starfsfólks félagsins og það ber að þakka.
Bjarni Þór Þórólfsson
framkvæmdastjóri