Árið 2023 ...
Mikil eftirspurn skapaðist eftir 20 íbúðum sem Búseti auglýsti til sölu við Maríugötu 7 í Urriðaholti í Garðabæ, en vel yfir 200 umsóknir bárust. Afhending íbúðanna fór fram á fallegum sumardegi um miðjan júní 2023. Urriðaholtið í Garðabæ er fyrsta hverfið á Íslandi sem fær vistvottun skipulags og hefur mikil uppbygging átt sér stað á svæðinu með fjölbreyttum húsagerðum. Hugmyndafræði hverfisins snýst um að íbúabyggðin bjóði íbúum upp á mikil lífsgæði um leið og náttúrunni og umhverfinu er gert hátt undir höfði. Maríugata 7 stendur í útjaðri hverfisins með fallega náttúru allt um kring auk útivistarsvæða og náttúruperla.
Öll grunnþjónusta er til staðar í hverfinu og stutt í verslunar- og þjónustukjarna. Fjórar tveggja herbergja íbúðir eru í húsinu, sjö þriggja herbergja, sjö fjögurra herbergja og tvær fimm herbergja, sem báðar eru á efstu hæð hússins. Bílskúrar fylgja átta stærstu íbúðunum og geymslur á jarðhæð með hinum tólf. Húsið er klætt loftuðum álklæðningum og eru gluggar og svalahurðir úr áli og timbri. Gólfefni, innréttingar og eldhústæki eru af miklum gæðum. Búseti óskar nýjum íbúum til hamingju með íbúðirnar.
Mikil eftirspurn skapaðist eftir íbúðum við Hallgerðargötu sem Búseti setti í sölu í apríl 2024. Alls bárust 768 umsóknir.
Vel hefur gengið að byggja húsin við Hallgerðargötu 24 og 26 í samstarfi við GG verk. Um er að ræða tvö glæsileg þriggja hæða lyftuhús með 42 íbúðum og sameiginlega bílageymslu. Íbúðirnar eru fjölbreyttar að stærð og gerð, tveggja til fimm herbergja, allt frá 60 m² til rúmlega 140 m² að stærð, búnar öllum helstu nútímaþægindum. Byggingarverkefnið felur í sér alls 37 íbúðir fyrir félagsmenn Búseta, fjórtán 2ja herbergja, tíu 3ja herbergja, tíu 4ra herbergja og þrjár 5 herbergja. Fimm íbúðir eru fyrir Brynju leigufélag ÖBÍ.
Við hönnun íbúðanna var kappkostað að nýta hvern fermetra vel og íbúðirnar því sérstaklega vel skipulagðar. Byggingarnar eru í samræmi við stefnu Búseta um vönduð og endingargóð húsakynni þar sem fólki líður vel. Lögð er áhersla á gott og stílhreint efnisval með tilliti til umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða er varðar rekstur og viðhald. Húsin eru staðsteypt og klædd að utan, gluggar og svalahurðir íbúða eru úr áli og timbri. Gólfefni, innréttingar, eldhústæki og innviðir í íbúðunum er af miklum gæðum.
Allar íbúðir í húsunum tveimur eru með svalalokunum. Hönnunin gerir ráð fyrir hindranalausu aðgengi að svölum. Í sameiginlegri bílageymslu er gert ráð fyrir rafhleðslu bifreiða. Eins og áður segir er mikið lagt upp góðri nýtingu á rými innan íbúða sem og annarri hönnun t.d. hvað varðar birtuflæði, loftgæði og heilbrigða innivist. Húsin samrýmast viðmiðum um algilda hönnun þar sem áhersla er á gott aðgengi fyrir alla. Búseti óskar nýjum íbúum til hamingju með íbúðirnar.
Skóflustunga að 46 nýjum íbúðum sem Búseti byggir við Eirhöfða 1 á Ártúnshöfða Reykjavíkur var tekin í nóvember 2023. Sérverk sér um byggingu íbúðanna. Það eru ASK arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnun húsanna.
Fyrirhugaðar framkvæmdir á Ártúnshöfðanum munu gjörbreyta ásýnd þessa rótgróna atvinnu- og iðnaðarhverfis. Fjölmenn íbúðabyggð mun rísa á höfðanum þar sem áður hafa verið bílasölur og iðnfyrirtæki. Á byggingarreitnum sem um ræðir verða samtals byggðar 148 íbúðir í fjórum húsum af fyrirtækinu Sérverki. Í þessu nýbyggingarverkefni Búseta byggir félagið fimm íbúðir fyrir Brynju, leigufélag Öryrkjabandalagsins. Íbúðirnar verða fjölbreyttar að stærð og gerð. Um er að ræða sex hæða hús með tveimur stigagöngum sem áætlað er að verði tilbúið til afhendingar um mitt ár 2025. Gert er ráð fyrir að íbúar húss Búseta geti nýtt bílastæði við húsið ásamt bílastæðum í nærliggjandi bílastæðahúsi. Hús Búseta verður klætt að utan með ýmist sléttri áklæðningu eða báraðri. Útihurðar verða úr áli og gluggar úr áli og timbri. Gólfefni, innréttingar og eldhústæki verða af miklum gæðum.
Ártúnshöfði ásamt Elliðaárvogi mynda stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Í þessum borgarhluta er áætlað að rísi allt að 8.000 íbúðir og að þar muni búa allt að 20.000 íbúar. Á fyrstu uppbyggingarsvæðunum er gert ráð fyrir 3.500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við blómlega þjónustu- og atvinnustarfsemi við Krossamýrartorg. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið. Krossmýrartorg stendur við Borgarlínuásinn sem liggur í gegnum miðju svæðisins. Við torgið verður menningarhús og fjölbreytt verslun og þjónusta.
Fullt út úr dyrum í afmælis- og útgáfuhófi á Grand Hótel
Á árinu 2023 fagnaði Búseti stórafmæli, en húsnæðissamvinnufélagið var stofnað árið 1983 með norrænar fyrirmyndir að leiðarljósi. Saga félagsins er farsæl og komin góð reynsla á rekstrarformið. Tímamótunum var fagnað með glæsilegu afmælishófi á Grand Hótel og með útgáfu innihaldsríkrar bókar um sögu Búseta. Fullt var út úr dyrum í hófinu sem var haldið í nóvember. Vel á annað hundrað manns mættu til að gleðjast, hlýða á erindi og njóta góðra veitinga.
Ræðumenn í hófinu voru Jón Ögmundsson stjórnarformaður Búseta, Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri félagsins og Páll Gunnlaugsson arkitekt. Jón Ögmundsson setti viðburðinn og bauð gesti velkomna. Að því búnu tók Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta við og kynnti dagskrána um leið og hann varpaði ljósi á Búseta í nútíð m.a. með myndskeiði sem er upplýsandi um starfsemi Búseta í dag og sýnir nútímalegar áherslur í rekstri félagsins. Þá kynnti hann aðalræðumann dagsins, Pál Gunnlaugsson arkitekt, sem fylgdi úr hlaði nýútkominni bók um Búseta.
Páll Gunnlaugsson skráði sögu félagsins í myndarlegt rit sem rammar inn helstu vörður í
áhugaverðri sögu félagsins. Páll Gunnlaugsson, er mörgum að góðu kunnur, en hann stundaði nám í arkitektúr í Lundi í Svíþjóð á áttunda áratugnum og hefur síðustu áratugina rekið ASK arkitekta ásamt öðrum. Hann gekk til liðs við Búseta á upphafsdögunum, átti sæti í fyrstu stjórn félagsins og var formaður stjórnar 1988 til 1994. Síðar kom hann að nýju í stjórn félagsins og var formaður aftur 2002 til 2005. Við gerð bókarinnar og skrásetningu sögunnar spiluðu einnig stórt hlutverk, rétt eins og við stofnun Búseta, þau Reynir Ingibjartsson og Ásdís Ingólfsdóttir. Sögunni hefur verið haldið vel til haga hjá Búseta m.a. með varðveislu ljósmynda og skjala af ýmsu tagi. Það er fróðlegt og skemmtilegt að skoða hvernig þetta byrjaði allt saman með lestri bókarinnar. Auk útgáfu bókarinnar var settur upp sérstakur vefur með umfjöllun um helstu vörður í sögu félagsins, 40ara.buseti.is. Björn Thoroddsen lék á gítar veislugestum til ánægju og myndaðist mjög góð stemmning í hófinu, sem eins og áður segir, var afar vel sótt.
Á árinu 2023 tókust samningar milli Búseta og leigufélagsins Heimstaden um kaup á 133 íbúðum við Tangabryggju í Reykjavík. En stjórnendur Heimstaden, sem er norrænt leigufélag, tóku þá ákvörðun að draga saman seglin og selja eignasafn sitt á Íslandi. Íbúðirnar sem Búseti keypti af Heimstaden eru í vönduðum húsum sem voru byggð af ÞG-verki 2016 og 2017. Þær eru fjölbreyttar að stærð og gerð og allar með stæði í lokaðri bílageymslu. Búseti tók við íbúðunum í þremur áföngum, í september 2023, nóvember 2023 og febrúar 2024. Við kaupin tók Búseti við gildandi leigusamningum og þegar íbúðir losna úr leigu breytir Búseti um fyrirkomulag og selur búseturétti. Þannig svarar félagið sívaxandi eftirspurn félagsmanna eftir húsnæði. Eitt húsanna, Tangabryggja 10 með 24 íbúðum, verður þó áfram í hefðbundinni leigu. Þegar hafa verið seldir allnokkrir búseturéttir 20 í íbúðum við Tangabryggju og borist í þá fjöldi umsókna þegar þeir hafa verið auglýstir enda um vel hannaðar og skemmtilegar íbúðir að ræða í fallegu og vaxandi hverfi á góðum stað í borginni. Eftir kaupin á íbúðunum af Heimstaden á Búseti samtals 187 íbúðir í Bryggjuhverfinu. Auk íbúðanna 133 sem voru keyptar af Heimstaden á félagið 28 íbúðir í húsunum við Naustabryggju 9 og 11 og 26 íbúðir í húsinu við Beimabryggju 42. Þar sem áður var athafnasvæði fyrirtækisins Björgunar rís nú íbúðabyggð og mannvænt borgarhverfi í góðum tengslum við aðra borgarhluta. Í hverfinu er einstök nálægð við hafið og fjöruna þar sem strandir, votlendi og bryggjur spila stórt hlutverk.
Fyrir skömmu hófust framkvæmdir á vegum Búseta sem hafa það að markmiði að þjóna enn betur hagsmunum félagsmanna og búseturéttarhafa. Framkvæmdirnar fela í sér að byggð verður þriðja hæðin ofan á höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 10. Þannig verður húsið stækkað um u.þ.b. 300 m2 um leið og önnur hæð hússins verður endurgerð. Markmiðið með þessum breytingum er að mynda betri umgjörð og aðstæður fyrir starfsemi félagsins með það að augnamiði að skapa enn betra starfsumhverfi fyrir starfsfólk um leið og höfuðstöðvarnar verða einskonar miðstöð fyrir félagsmenn og búseturéttarhafa. Við framkvæmdina verður til aðstaða á þriðju hæðinni sem nýtist félagsmönnum og búseturéttarhöfum í margvíslegu samhengi, m.a. til funda, fræðslu og annarra viðburða.
Höfuðstöðvar félagsins stækka og breytast Félagið mun þannig geta staðið fyrir viðburðum, kynningarfundum og aðalfundum í sal sem verður að finna á efstu hæð hússins. Önnur hæðin, sem nú hýsir vinnustöðvar og fundarsal, hefur verið endurskipulögð þannig að hún þjóni starfseminni betur. En of þröngt var um starfsfólk í fyrra skipulagi og felur framkvæmdin í sér miklar framfarir hvað varðar vinnuaðstöðu. Hér má sjá teikningar sem endurspegla í megindráttum hvernig höfuðstöðvar Búseta munu líta út eftir framkvæmdina.
Árið 2023 er sannkallað stórafmælisár hjá Búseta. Á þessu afmælisári Búseta fagna einnig tveir starfsmenn félagsins mjög stórum starfsafmælum. Íris Margrét Valdimarsdóttir fagnar 25 ára starfsafmæli og Birna Andrésdóttir fagnar 20 ára starfsafmæli. Þær stöllur hafa báðar blómstrað í gegnum öll árin sem starfsmenn Búseta.
Á árshátíð Búseta sem fór fram í september 2023 voru þær Íris og Birna heiðraðar af framkvæmdastjóra Búseta, Bjarna Þór Þórólfssyni, þar sem hann afhenti þeim blómvendi, viðurkenningu og gjafakort í tilefni af þessum glæsilegu tímamótum.
Aðeins 2% fyrirtækja hljóta þessa viðurkenningu frá Creditinfo Ísland og erum við hjá Búseta stolt af því að vera hluti þess hóps!
Leigufélag Búseta er einnig framúrskarandi að mati Creditinfo.
Ánægjuleg niðurstaða og gagnlegt safn upplýsinga til að gera gott félag enn betra
Rannsóknar- og upplýsingafyrirtækið Prósent framkvæmdi þjónustukönnun fyrir Búseta meðal búseturéttarhafa þar sem spurt var út í viðhorf þeirra til ýmissa þjónustuþátta er varða starfsemi Búseta. Svarhlutfall var gott eða 49,3%. Niðurstaðan var einkar ánægjuleg fyrir Búseta og mynda niðurstöður könnunarinnar gagnlegt safn upplýsinga til að gera gott félag enn betra.
Markmiðið með gerð þjónustukönnunarinnar var bæði að fá innsýn í hvað vel er gert og eins hvar hægt er að gera betur. Starfsfólk vann úr svörunum sem bárust og hafa samband við þá sem gáfu heimild til þess. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir eru 80% búseturéttarhafa annað hvort mjög ánægðir eða frekar ánægðir með þjónustu Búseta. Þessi jákvæða niðurstaða ásamt gagnlegum skilaboðum frá þeim sem tóku þátt eru hvatning til að gera enn betur.
Einn þátttakandi var dreginn úr hópi svarenda. Sú heppna var Ragnheiður Halldórsdóttir og fékk hún 20 þúsund króna gjafakort, sem hún tók við hér úr höndum Svanhildar Eiríksdóttur fyrrverandi starfsmanns Búseta.
Samþykkt var fyrir nokkrum árum af Borginni hugmyndin hennar Írisar Margrétar Valdimarsdóttir, starfsmanns Búseta, um heiti á götu sem liggur á milli Þverholts og Einholts. Skilti með götunafninu var sett upp í desember 2023.